Stjórn Marel leggur til á aðalfundi sem haldinn verður í enda mánaðar að hluthafar fái 20% af hagnaði félagsins í fyrra. Hagnaðurinn nam 35,5 milljónum evra og falla því 6,9 milljónir evra hluthöfum Marel í skaut. Það jafngildir rúmum 1,1 milljarði króna.

Marel hefur ekki greitt út arð í fimm ár. Síðast gerði félagið það árið 2007 vegna afkomunnar 2006 en þá nam arðgreiðan 824 þúsund evrum, um 73 milljónum króna á þáverandi gengi.

Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marel með 35,6% hlut. Forstjóri Eyris er Árni Oddur Þórðarson, sem jafnframt er stjórnarformaður Marel. Félag hans fær í samræmi við eignarhlutinn rúmar 2,4 milljónir evra, jafnvirði tæpra 400 milljóna króna.

Danski sjóðurinn Grundtvig Invest á 8,38% hlut í Marel og fær hann 578,2 þúsund evrur í arð. Það jafngildir tæpum 94 milljónum króna.

Þriðji stærsti hluthafi Marel er svo Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 6,35% hlut. Samkvæmt því fær sjóðurinn rúmar 241 þúsund evrur í sinn hlut, jafnvirði 39 milljóna króna.

Aðrir hluthafar á lista yfir tíu helstu hluthafa Marel eru lífeyris- og fjárfestingasjóðir.

Árni Oddur Þórðarson
Árni Oddur Þórðarson
© BIG (VB MYND/BIG)

Félag sem Ární Oddur Þórðarson stýrir á tæpan 36% hlut í Marel. Það fær í samræmi við eignarhlutinn 400 milljónir króna í arð.