*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 18. desember 2018 18:09

Hluthafar samþykkja kaupin á Gamma

Líklega verða sjóðir hjá Gamma sameinaðir við sjóði hjá Kviku og þá munu starfsmenn Gamma fá rétt til að kaupa hluti í Kviku.

Ritstjórn
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, hringdi Kviku inn í kauphöllina fyrr á þessu ári. Kvika ætlar á aðalmarkað kauphallarinnar á næsta ári.
Haraldur Guðjónsson

Hluthafafundur Kviku banka samþykkti nú fyrir skömmu kaup félagsins á Gamma, að því gefnu að eftirlitsaðilar samþykki kaupin. Búist er við að kaupverðið nemi 2,4 milljörðum króna. Þegar tilkynnt var um kaupin í sumar var ráðgert að kaupverðið yrði 3,8 milljarðar króna og því hefur það lækkað töluvert síðan. Kaupverðið er þó að stórum hluta árangurstengt og getur því enn tekið talsverðum breytingum.

Í kynningu sem farið var yfir á hluthafafundinum kom fram að ekki væri stefnt að hlutafjáraukningu vegna kaupanna þar sem eiginfjárhlutfall félagsins væri ríflegt og muni áfram vera talsvert yfir lögbundnu lágmarki eftir kaupin.

Bjóða á starfsmönnum Gamma að kaupa áskriftarréttindi líkt og hefur staðið starfsmönnum Kviku til boða. Leggja á fyrir næsta næsta aðalfund Kviku aukin heimild til útgáfu áskriftarréttinda. Þá er einnig ráðgert að samþætta hluta starfsemi Gamma við Kviku, t.d. sambærilega sjóði hjá Gamma og Júpiter, dótturfélagi Kviku, auk þess að útvista á ýmissi stoðþjónustu til Kviku. Þó er enn stefnt að því að Gamma verði rekið sem sérstakt félag og ekki er stefnt að sameiningu við félög innan samstæðu Kviku.

Áætlað er að áhrif af kaupunum á GAMMA á afkomu Kviku fyrir skatta verði á bilinu 300 til 400 milljónir króna á ársgrundvelli en stjórn Kviku áætlar að hagnaður félagsins fyrir skatta á næsta ári verði tæpir tveir milljarðar króna. Búið er að senda inn tilkynningar til bæði Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins en samkvæmt lögbundnum fresti gæti meðferð þeirra tekið allt að því 6 mánuði þó forsvarsmenn fyrirtækjanna vonist til að það taki skemmri tíma.

Stikkorð: Gamma Kvika