Nýr hlutahafahópur Straums-Burðaráss þarf að sammælast um framtíðarsýn og áherslur í rekstri bankans, að sögn greiningardeildar Glitnis, þrátt fyrir að friður hafi komist á í eigendahópnum.

Átök hafa verið í hlutahafahópnum á milli fylkinga þeirra Björgólfs Thors og Magnúsar Kristinssonar og úr varð að FL Group festi kaup á 24,2% hlut sem var í eigu Magnúsar Kristinsonar, Kristins Björnssonar, Þórðar Más Jóhannessonar og tengdra aðila.

?Þrátt fyrir að friður komist á í eigendahópi bankans þá mun hinn nýi hluthafahópur Straums-Burðaráss þurfa að sammælast um framtíðarsýn og áherslur í rekstri bankans. Straumur-Burðarás hefur í nokkurn tíma stefnt að því að minnka vægi markaðsverðbréfa í afkomu bankans með því að efla útlána- og þóknanatengda starfsemi," segir greiningardeild Glitnis.

Eftir viðskiptin er FL Group stærsti einstaki hluthafinn Straumi-Burðarási en FL Group er að auki stærsti einstaki hluthafinn í Glitni, með 23%, að sögn greiningardeildar.

?Þar sem Landsbankinn og tengd félög fara með ráðandi eignarhlut í Straumi-Burðarási þá er ljóst að sterkir straumar í innlendri bankastarfsemi eru samankomnir í stjórn Straums-Burðaráss," segir greiningardeildin.