*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 21. janúar 2013 18:47

Hluthafar vilja að Lýður stígi til hliðar

Þeir sem fara með rétt rúman helmingshlut í Bakkavör vilja sinn mann í stól stjórnarformanns.

Ritstjórn
Lýður Guðmundsson sem stjórnarformaður Exista.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fulltrúar Arion banka og lífeyrissjóðanna í hluthafahópi Bakkavarar vilja að Lýður Guðmundsson stígi til hliðar á meðan ákæra á hendur honum er til meðferðar í dómskerfinu. Þeir vilja fremur að stjórnarformaðurinn komi úr þeirra röðum. Arion banki á 26% hlut í Bakkavör og lífeyrissjóðir eiga saman 25%. Saman eiga bankinn og sjóðirnir því 51% og fara þeir saman með meirihluta í Bakkavör.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar var m.a. rifjað upp að Lýður og Ágúst bróðir hans sem jafnframt er forstjóri Bakkavarar, hafa sankað að sér hlutabréfum í Bakkavör og eigi þeir nú um 40% hlut í félaginu. Á móti bankanum, lífeyrissjóðunum og bræðrunum á vogunarsjóðurinn Burlington Management 6% í Bakkavör og aðrir 3%.

Sérstakur saksóknari ákærði Lýð ásamt lögmanninum Bjarnfreði H. Ólafssyni í fyrrahaust í tengslum við 50 milljarða króna hlutafjárhækkun Exista síðla árs 2008. Lýður var þá stjórnarformaður Exista. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í október í fyrra. Þeir eru þar ákærðir fyrir brot gegn hlutafélagalögum fyrir að hafa vísvitandi brotið gegn ákvæðum um greiðslu hlutafjár með því að greðia minna en nafnverð fyrir hlutaféð í Exista. Lýsing lánaði einn milljarð króna fyrir hlutafjárhækkuninni. Í ákærunni kemur m.a. fram að upphæðin hafi aldrei komið inn í rekstur Exista. Sérstakur saksóknari krafðist þess í ákærunni að Bjarnfreður verði sviptur lögmannsréttindum í tengslum við málið.