Bankasýsla ríkisins telur að hlutur ríkissjóðs í umfram eigin fé viðskiptabankanna geti numið um 120 milljörðum króna. Hins vegar gerir fjármálaáætlun áranna 2018 til 2022 ráð fyrir 140 milljörðum króna í óreglulegum tekjum ríkissjóðs, þar einkanlega var horft til arðgreiðslna frá bönkunum.

„Má því segja að þegar sé búið að gera ráð fyrir verulegum hluta af væntanlegum arðgreiðslum viðskiptabanka í eigu ríkisins í tekjuáætlunum fyrir ríkissjóð á komandi árum,“ segir í minnisblaði frá Bankasýslunni.

Gera má ráð fyrir að ástæða minnisblaðsins sé töluverð umræða af hendi stjórnmálamanna um að hægt sé að ná töluverðu fé út úr bönkunum til að standa þannig undir loforðum þeirra um aukin útgjöld. Í heildina metur Bankasýslan það þó þannig að mismunur á eigin fé bankanna og eiginfjárkröfunum sem Fjármálaeftirlitið setur þeim sé alls um 253 milljarðar króna.

„[E]n sé tekið tillit til þess að óvarlegt þykir að mæta aðeins lágmarkskröfum um eigið fé er gert ráð fyrir að áætlað umfram eigið fé nemi aldrei lægra hlutfalli en 3% yfir tilskildu lágmarki,“ segir einnig í minnisblaðinu en ef gert er ráð fyrir þeim takmörkunum svarar mismunurinn til um 183 milljarða króna.