Síðasti ársfjórðungur nýliðins árs var ekki jafn góður í bókum sænsku fataverslunarinnar H&M og árið 2011. Rekstrarhagnaðurinn nam 6,6 milljörðum sænskra króna, jafnvirði 133 milljarða íslenskra króna, á fjórðungnum. Þetta er 200 milljónum sænskra króna minna en á fjórða ársfjórðungi í hittifyrra. Þá nam hagnaðurinn 5,29 milljörðum sænskra króna samanborið við 5,36 milljarða á sama tíma ári fyrr. Afkoman er engu að síður yfir væntingum markaðsaðila.

Fjárfestingar stjórnenda H&M og vöxtur settu mark sitt á uppgjör fataverslunarinnar. Tekjur jukust nefnilega á tímabilinu, námu 32,5 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi samanborið við 30,95 milljarða á fjórða ársfjórðungi í hittifyrra. Verslanir H&M eru 2.800 talsins og er reiknað með að sækja fram þótt á móti blási í alþjóðlegu hagkerfi og opnað 325 verslanir til viðbótar á árinu, að sögn Karl-Johan Persson, forstjóra H&M.

H&M er næst stærsta fatakeðja í heimi á eftir hinni spænsku Zöru.