Fjórum mánuðum áður en íslenska fjármálakerfið hrundi og gjaldeyrishöft voru tekin upp var fjármálafyrirtækið GAM Management sett á laggirnar. Félagið var stofnað af þeim Gísla Haukssyni og Agnari T. Möller, sem hófu viðskipti með skuldabréf fyrir eigin reikning. Í dag, níu árum síðar, gengur félagið undir nafninu GAMMA Capital Management og stýrir yfir 130 milljörðum króna fyrir hönd lífeyrissjóða, tryggingafélaga, bankastofnanir, fyrirtæki, erlenda aðila sem og einstaklinga. Starfsmenn GAMMA og tengdra félaga eru um 50. Sjóðir í rekstri GAMMA eru 31 og ná þvert á alla eignaflokka á fjármálamarkaði auk sérhæfðra fjárfestinga. Efnahags- og fyrirtækjaráðgjöf GAMMA hefur einnig eflst mikið og hefur fyrirtækið opnað skrifstofur í London, New York og Zürich. Ljóst er því að fyrirtækið hefur vaxið umtalsvert á skömmum tíma og hraðar en önnur félög í sjóðastýringu á innlendum markaði.

Valdimar Ármann tók við sem forstjóri GAMMA í byrjun mars á þessu ári, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2009. Valdimar, sem hefur um 17 ára reynslu af fjármálamörkuðum á Íslandi og erlendis, segir árangur fyrirtækisins skýrast að mestu leyti af trú og sýn GAMMA á fjárfestingum í íslensku hagkerfi.

Hverju þakkar þú vöxt fyrirtækisins og góðan árangur af rekstri sjóða undanfarin ár?

„Það er fyrst og fremst trú okkar og sýn á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. Vöruframboðið okkar hefur einnig verið í stöðugri þróun og uppbyggingu og við höfum verið að bjóða upp á nýjar vörur fyrir fjárfesta. Við höfum gætt að því að hlúa vel að því sem við setjum á laggirnar, kynna fyrir viðskiptavinum hvað er í boði og höfða til breiðs fjárfestahóps með fjölbreytt vöruframboð. Við höfum passað upp á það að vaxa jafnt og þétt. Svo er það auðvitað teymið okkar, en okkar starfsmenn hafa mikla reynslu og sérfræðikunnáttu á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum og á fasteignamarkaði.“

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna hjá GAMMA árið 2009?

„Ég byrjaði sem sjóðsstjóri hjá GAMMA snemma árið 2009, en hugmyndin var upphaflega að nýta mína reynslu og þekkingu í undirbúningsvinnu fyrir afnám hafta, einkum uppbyggingu á erlendu vöruframboði samhliða þessu innlendu. Ég var þá nýkominn heim eftir að hafa stundað nám og starfað í sjö ár erlendis. Ég kláraði fjármálaverkfræði í framhaldsnámi frá ICMA Centre frá University of Reading, en þar áður hafði ég tekið hagfræði í grunnámi hjá Háskóla Íslands og starfað í um þrjú ár hjá Búnaðarbankanum Verðbréf, fyrst í bakvinnslu og svo afleiðumiðlun. Eftir námið í Reading fluttist ég ásamt fjölskyldunni til London þar sem ég var ráðinn inn í hollenska bankann ABN AMRO árið 2003. Þar var ég að vinna við hönnun, þróun, sölu og fræðslu á verðbólgutengdum fjármálaafurðum með útibúaneti bankans víðsvegar um Evrópu. Árið 2006 var svo ákveðið að stækka við starfsemi bankans á þessu sviði í Bandaríkjunum og flutti ég þá til New York til að leiða þá stækkun. Síðar fór ég til Royal Bank of Scotland þegar þeir tóku yfir ABN AMRO, en sú yfirtaka reyndist þeim dýrkeypt í fjármálahruninu.

Eftir miklar breytingar í bankanum í byrjun árs 2009 ákváðum við að flytja heim eftir góðan tíma erlendis og byrjaði ég fljótlega hjá GAMMA. Ég þekkti Gísla Hauksson úr hagfræðináminu og Búnaðarbankanum. Það var áhugavert en mikil tilbreyting að flytja aftur til Íslands og koma úr stóru, alþjóðlegu viðskiptaumhverfi inn í lítið, nýtt félag á markaðnum á róstusömum tímum. Um það leyti sem ég byrjaði hjá GAMMA voru starfsmenn fyrirtækisins fjórir og eignir í stýringu í kringum 2 milljarðar króna.

Þegar ég byrjaði hjá GAMMA héldum við að fjármagnshöftin yrðu skammtímaráðstöfun. En fljótlega var fyrirséð að höftin yrðu lengur en gefið var til kynna í fyrstu. Þá fórum við að breyta til og ég leiddi sjóðastækkunina í almennum sjóðum sem framkvæmdastjóri sjóða. Fyrst fjárfestum við eingöngu í ríkisskuldabréfum. Vextir voru háir og verðlagningin á markaði hagstæð. Svo færðum við okkur yfir í sérhæfðar fjárfestingar, til dæmis á fasteignamarkaði, og hlutabréf eftir að markaðurinn svo gott sem þurrkaðist út, enda fannst okkur rökrétt að hann myndi byggjast upp aftur með endurreisn og fjárhagslegri endurskipulagningu hagkerfisins. Við bjuggum til vísitölusafn sem náði yfir allan verðbréfamarkaðinn á Íslandi, en á þeim tíma var ekki til nein aðferðafræði til að mæla ávöxtun á markaðnum. Í dag höldum við úti sjö vísitölum á verðbréfamarkaði sem eru orðin viðurkennd viðmið í eignastýringu.

Með góðum rekstri sjóða og góðri ávöxtun í öllum helstu eignaflokkum höfum við náð að vaxa jafnt og þétt. Sjóðirnir hafa skilað góðri ávöxtun og sumir hafa skilað hærri ávöxtun en markaðurinn og sambærilegir sjóðir í stýringu annarra rekstrarfélaga. Fjöldi viðskiptavina og eignir í stýringu hafa farið stigvaxandi. Á níu árum höfum við farið úr 2 milljörðum króna í stýringu í 130 milljarða. Svo höfum við aukið úrval sjóða í stýringu og annarra fjármálagerninga sem hæfir mjög víðtæku mengi fjárfesta með tilliti til eignaflokka, áhættu og líftíma. Í dag erum við með tvo verðbréfasjóði, sex fjárfestingasjóði og 23 fagfjárfestasjóði í rekstri.

Nánar er rætt við Valdimar Ármann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .