*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 25. júní 2019 11:47

Hófleg hækkun launavísitölunnar

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,7% milli apríl og maí.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,7% milli apríl og maí. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans. 

„Breytingin á ársgrundvelli var 5,1% sem er minnsta ársbreyting frá apríl 2014. Þess ber þó að geta að laun hækkuðu almennt vegna kjarasamninga á almenna markaðnum í maí 2018 sem dregur úr árshækkuninni. Samanlögð hækkun launavísitölunnar í apríl og maí var 2,2% og má ætla að þar sé um að ræða ágæta mælingu á upphafsáhrifum nýgerðra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Hækkun launavísitölunnar vegna þessa er minni en verið hefur síðustu ár," segir í Hagsjánni.

„Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og frekar togast upp á við eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur var þannig 1,5% meiri nú í maí en í maí 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um tæp 26%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd."