Nout Wellink, seðlabankastjóri Hollands, mun verða yfirheyrður af hollenska þinginu í september, þar sem hann verður látinn útskýra hlut seðlabankans í falli íslenska Icesave-bankans.

Greint er frá þessu í hollenskum fjölmiðlum í dag.

Wouter Bos, fjármálaráðherran hollenski, hefur veitt samþykki sitt fyrir slíkri yfirheyrslu. Þingmenn höfðu áður krafist þess að hún færi fram.

Nout Wellink hefur síðustu mánuði verið gagnrýndir af hollenskum stjórnmálamönnum fyrir þátt sinn í Icesave-málinu.

Hann er sagður vera ábyrgur fyrir því að svo fór sem fór. Hann er meðal annars sakaður um að hafa ekki komið í veg fyrir að Landsbankinn opnaði Icesave-reikninga í landinu og að hafa ekki upplýst um þá áhættu sem fylgdi þeim.

Seðlabankastjórinn hefur ávallt svarað því til að hann hafi eingöngu verið að vinna í samræmi við evrópsk lög og reglur.