Hömlur, dótturfélag Landsbankans sem sér um umsýslu og sölu eigna sem bankinn leysir til sín vegna fullnustu krafna, hagnaðist um 546 milljónir króna á síðasta ári. Það er mun meiri hagnaður en árið á undan, þegar hagnaðurinn nam 173 milljónum.

Eignir félagsins námu tæpum 3 milljörðum króna í lok síðasta árs og minnkuðu um 200 milljónir milli ára. Stærsta eign félagsins var dótturfélagið Hömlur 1 ehf. sem bókfært var á 820 milljónir króna. Eignir þess félags voru metnar á 7 milljarða króna í lok síðasta árs, en það skuldaði Landsbankanum um 6,4 milljarða.

Hömlur 1 átti íbúðarhúsnæði fyrir 1,8 milljarða, lóðir og sumarhús fyrir 2,6 milljarða og atvinnuhúsnæði fyrir 700 milljónir um síðustu áramót.