Undirbúningur hópmálsóknar fyrrum hluthafa í Landsbankanum á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni er á lokastigi, en hópurinn telur sig eiga rétt til skaðabóta frá honum. RÚV greinir frá þessu.

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður og Ólafur Kristinsson lögmaður taka báðir þátt í málshöfðuninni, en í frétt RÚV kemur fram að lífeyrissjóðir sem áttu hlut í bankanum hafi einnig athugað með aðkomu að málinu.

Telur hópurinn sig hafa undir höndum gögn sem styðji að eignarhald Björgólfs í bankanum hafi ekki verið rétt skráð og það hafi haft áhrif á fjárfestingar annarra með hlutabréf í bankanum. Þá er á því byggt að á ákveðnum tímapunkti hafi myndast yfirtökuskylda hjá Björgólfi að kaupa aðra hluthafa út.