Á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) er nú mikið rætt um hvort samræma eigi löggjöf aðildarríkja um  hópmálsóknir og þá með útgáfu nýrrar tilskipunnar ESB. Hefur framkvæmdastjóri ESB á sviði neytendamála, Meglena Kuneva, sýnt slíkri löggjöf mikinn áhuga.

Samtök atvinnulífsins í Evrópu, BUSINESSEUROPE, hafa hins vegar vakið á því athygli að óeðlilegt sé að ESB sé beinlínis að hvetja til lögsókna með löggjöf sinni. Vænlegra sé fyrir alla aðila, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki að leggja fremur áherslu á og styrkja þau úrræði sem nú þegar eru til staðar og hægt er að sækja utan dómstóla s.s. til gerðardóma, sáttameðferða og kærunefnda.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá SA, fjallar um málið í grein í Viðskiptablaðinu. Þar kemur m.a. fram að af 27 aðildarríkjum ESB eru 14 ríki með ákvæði í lögum sem heimila hópmálsóknir. Nokkur ríki til viðbótar eru nú að huga að löggjöf á þessu sviði og þá sérstaklega á sviði neytendaverndar, umhverfisverndar og til handa minnihluta í hlutafélögum.