Samgöngustofa tjáði samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið (SRN) í byrjun september 2018 að formlegt mat á fjárhagsstöðu Wow air væri hafið eftir beiðni ráðuneytisins þess efnis. Reyndin var hins vegar að eftirlit hófst ekki fyrr en tveimur vikum síðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í óútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, um aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að falli flugfélagsins.

Sem kunnugt er eru rétt rúm tvö ár liðin frá því að Wow air fór í greiðsluþrot. Síðustu tólf starfsmánuði félagsins gekk talsvert á í rekstri þess. Sumarið 2019 réðst félagið í 6,8 milljarða króna skuldabréfaútboð og í byrjun nóvember sama ár var tilkynnt að Icelandair stefndi að því að kaupa allt hlutafé í félaginu. Fyrirvarar sem settir voru stóðust ekki og undir lok þess mánaðar hófust viðræður um Indigo Partners um mögulega kaup. Í mars 2019 flosnaði upp úr þeim viðræðum og skammvinnar viðræður hófust á ný milli Icelandair og Wow þann 21. mars. Þeim lauk þremur dögum síðar og þann 28. mars var ljóst að Wow hefði farið í sína síðustu flugferð.

Sumarið 2019 lögðu þingmenn úr öllum flokkum nema Flokki fólksins fram beiðni um úttekt frá ríkisendurskoðanda á aðkomu Samgöngustofu og Isavia að starfsemi og rekstri Wow í aðdraganda og falls félagsins. Fyrsti flutningsmaður beiðnarinnar var Helga Vala Helgadóttir, Samfylkingu. Úttektin liggur nú fyrir og hefur verið dreift meðal þingmanna en verður ekki kunngjörð opinberlega fyrr en umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur fjallað um hana í næstu viku.

„Eftir að ljóst var að Wow air hf. var komið í fjárhagsvandræði í maí 2018 aflaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti upplýsinga um framkvæmd eftirlits Samgöngustofu. Að mati ráðuneytisins var eftirlitinu ábótavant og nauðsynlegar breytingar á því höfðu ekki náð fram að ganga í ágúst 2018. Því sendi ráðuneytið fyrst frá sér leiðbeiningar og að lokum fyrirmæli um sérstakt eftirlit í byrjun september sama ár,“ segir í skýrslunni.

Samgöngustofa kvaðst þá þegar vinna að slíku mati þó í reynd hafi svo ekki verið með formlegum hætti. Það var ekki fyrr en 21. september, tveimur vikum eftir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hafði gefið stofnuninni fyrirmæli um að gera ítarlegt mat á fjárhagsstöðu Wow air hf., að Samgöngustofa tilkynnti flugfélaginu að eftirlit væri hafið með bréfi þess efnis.

„Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni,“ segir í skýrslunni.

Nánar er fjallað innihald skýrslunnar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .