Mikil þensla er nú í verktakastarfsemi á Íslandi og virðist sama í hvaða grein er borið niður. Jarðvinnuverktakar eru flestir hverjir upp fyrir haus í verkefnum og sýnir það sig vel í mikilli sölu vinnuvéla, vörubíla og annarra tækja á undanförnum mánuðum. Sama er uppi á teningnum í öðrum verktakagreinum eins og í byggingariðnaði. Vandinn er einna helst sá að verulegur skortur er nú á hæfu vinnuafli.

Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið hefur aflað sér með samtölum við fjölda verktaka að undanförnu er mikið að gera og ekkert lát virðist ætla að verða á því á næstunni. Helsti vandi jarðvinnuverktaka nú er skortur á mannafli og reyndum tækjamönnum. Karl S. Hannesson, stjórnarformaður Jarðvéla ehf., sem nú vinna að tvöföldun hluta Vesturlandsvegar, sagði m.a. að dapurlega gangi að fá mannskap þessa dagana. Hann segir að þeir hafi aðeins reynt að fá útlendinga í vinnu en tungumálaörðugleikar valdi þar oft vandræðum. Ekki sé nóg að ráða menn ef þeir skilji svo ekkert sem við þá er sagt. Hann segir dapurlegt að menn séu farnir að slást um mannskapinn og reyni jafnvel að stela góðum starfsmönnum hver frá öðrum með yfirboðum.

Svipaða sögu sagði Helgi Ó. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Þróttar ehf. á Akranesi. Hann gerir út mikinn flota af vörubílum, jarðýtum og gröfum og horfir fram á vandræði með haustinu. Sagðist hann m.a. vera að skoða ráðningu tækjamanna frá Portúgal til að taka við af skólafólki sem hverfur úr vinnu í næsta mánuði.

Innflutningur á starfsfólki leysir þó ekki alltaf vandann. Dæmi eru um að hingað hafi ráðið sig útlendingar sem segjast vera með réttindi á hinar og þessar vinnuvélar. Þegar á reynir hafa pappírar þó ekki alltaf reynst verið í lagi, samkvæmt íslenskum reglum, auk þess sem tungumálaörðugleikar setja strik í reikninginn. Þeir sem hafa nægan mannskap prísa sig hins vegar sæla, en ekki er langt síðan staðan var allt önnur og mikill fjöldi fólks á atvinnuleysisskrám hérlendis.

Þetta kemur fram í sérblaði Viðskiptablaðsins um verktaka sem kom út í dag.