Fitch Ratings hefur lækkað horfur Norvik Bank úr jákvæðum í stöðugar, að því er kemur fram í tilkynningu matsfyrirtækisins. Einkunn bankans er þó óbreytt hjá Fitch og er B+. Samkvæmt upplýsingum frá Fitch skýrist þessi breyting af þeim áskorunum sem stjórnendur bankans standa frammi fyrir. Þær geta haft áhrif á vöxt bankans auk þess sem erfitt geti reynst að halda hagnaðarmarkmiðum þar sem verulega hefur hægst á efnahagslífi Lettlands. Þessi breyting skýrist einnig af ástandi á fjármálamörkuðum sem mun gera fyrirtækjum erfiðara fyrir að fjármagna sig og gæti hækkað fjármagnskostnað.

Í umsögn Fitch er vikið að því að við mat á bankanum sé horft til þess að það sé enn talsverð áhætta samfara aflandsreikningum í bankanum þó sérfræðingar matsfyrirtækisins viðurkenni að verulegt átak hafi verið gert í þeim málum. Einnig telja sérfræðingar Fitch að rekstur bankans sé mun heilbrigðari en áður og áhættustjórn hafi batnað verulega. Um leið hafi verið gert átak til að efla starfsemi hans innanlands.

Í lok nóvember 2007 var Norvik Bank í 12. sæti af 23 bönkum Lettlands þegar tekið er mið af eignum. Hlutafé bankans var aukið um átta milljónir lats í maí á síðasta ári í samræmi við þá stefnu stjórnenda hans að styðja jöfnum höndum við útvíkkun bankans með aukningu hlutafjár. Áætlanir bankans gerðu ráð fyrir að hagnaður bankans eftir skatta færi yfir 10 milljónir lats eða ríflega 1.200 milljónir króna árið 2007. Straumborg, félag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, fer með 51,06% eignarhlut í bankanum. Stefnt er að því að Norvik verði á meðal fimm stærstu banka Lettlands. Heildareignir Norvik Bank jukust um 15% á árinu 2006.

Norvik Bank opnaði nýtt húsnæði í Moskvu síðasta sumar og um svipað leyti fékk bankinn lánshæfismat frá matsfyrirtækinu Moody's.