Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir er formaður skilanefndar Glitnis og hefur vakið athygli fyrir hörku sína gagnvart aðilum tengdum hinum fallna banka.

Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir er fædd í Reykjavík 22. ágúst 1964. Hún er dóttir hjónanna Guðbjarts Hólm Guðbjartssonar, bónda á Króki í Kjalarneshreppi í Kjós og Gunnleifar Kristínar Sveinsdóttur húsfreyju. Steinunn er gift Þórði Birgissyni tannlækni og eiga þau tvo syni. Steinunn gekk í grunnskóla í Mosfellssveit og varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983.

Leiðin lá svo beint í lögfræði í Háskóla Íslands þar sem Steinunn kláraði kandídatspróf árið 1988 og var hún í stjórn Orators 1985-1986. Fyrstu árin eftir útskrift starfaði Steinunn sem fulltrúi hjá yfirborgarfógeta í Reykjavík. Hún fékk réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 1991 og starfaði sem fulltrúi á lögmannsstofu Atla Gíslasonar hrl. og Magnúsar Norðdal til ársins 1995 þegar hún stofnaði sína eigin lögmannsstofu. Árið 2004 fékk hún réttindi sem hæstaréttarlögmaður 2004.

Steinunn hefur kennt samhliða lögmannsstörfum sínum og verið aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2007. Hún hefur einnig sinnt kennslu á fjölmörgum námskeiðum hjá endurmenntun Háskóla Íslands og Lögmannafélaginu.

Stýrir fallna Glitni

Í október 2008 var Steinunn skipuð af Fjármálaeftirlitinu í skilanefnd Glitnis og í nóvember sama ár umsjónarmaður með greiðslustöðvun Glitnis. Í maí 2009 var Steinunn svo skipuð í slitastórn Glitnis og gegnir þar stöðu formanns. Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, sem mynda slitastjórn Glitnis, stofnuðu í janúar síðastliðnum lögmannstofuna Borgarlögmenn – Holm & Partners. Við sama tækifæri var stofnað nýtt sameignarfélag utan um reksturinn, Borgarlögmenn sf., og hefur þessi lögmannsstofa ráðið til sín nokkra fulltrúa sem starfa fyrir skilanefndina.

Finnst gaman að ferðast

Kunnugir segja að áhugamál Steinunnar fyrir utan vinnuna séu einkum að ferðast og hefur hún verið dugleg við ferðalög síðustu árin. T.d. dvaldi hún síðustu jól ásamt fjölskyldu sinni í Dubai og árið þar áður var hún á skíðum í Austurríki. Steinunn hefur einnig dvalið mikið í New York að undanförnu í tengslum við málsókn Glitnis gagnvart fyrrverandi eigendum bankans og aðilum tengdum þeim.

Um Steinunni
»» 1983: Stúdent frá M.H.
»» 1988: Cand. juris frá H.Í.
»» 1988-1991: Fulltrúi hjá yfirborgarfógeta í Reykjavik
»» 1991: Héraðsdómslögmaður
»» 1991-1995: Fulltrúi á lögmannsstofu Atla Gíslasonar hrl. og Magnúsar Norðdal
»» 1995: Stofnar eigin lögmannsstofu
»» 2004: Hæstaréttarlögmaður
»» 1996-2004: Í stjórn Lögfræðingafélagsins
»» 2007: Aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík
»» 2008: Skilanefnd Glitnis og umsjónarmaður með greiðslustöðvun Glitnis
»» 2009: Formaður slitastjórnar Glitnis
»» 2011: Stofnar Borgarlögmenn

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.