Framtakssjóðurinn Horn II slhf., sem er í rekstri Landsbréfa, hefur fest kaup á 33% hlut í Fáfnir Offshore hf. Um er að ræða hlutafjáraukningu hjá Fáfni sem nýtt verður til kaupa á nýju skipi til að þjónusta olíuiðnaðinn á norðurslóðum.

Fáfnir Offshore hf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla auk annarra verkefna á norðlægum slóðum, t.d. leitar og björgunarstörf. Fyrsta skip félagsins ber nafnið Polarsyssel og verður það afhent nú í haust.

Horn II slhf., verður eftir hlutafjáraukninguna stærsti einstaki hluthafi en stofnandi félagsins, Steingrímur Erlingsson er með um 30% hlut en hann hefur mikla reynslu af rekstri skipa á norðurslóðum.