Horn fjárfestingarfélag, sem er í eigu Landsbanka Íslands, hefur farið fram á að lögbann verði þegar í stað sett á DV vegna umfjöllunar blaðsins um málefni félagsins. Krafan verður tekin fyrir hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík í dag.

DV hefur að undanförnu fjallað um málefni félagsins og hefur undir höndum fundargerðir félagsins. Hermann M. Þórisson, framkvæmdastjóri Horns, sendi DV um helgina bbréf þar sem sagði að gögnin séu viðkvæm trúnaðargögn um einkamálefni félagsins. DV greinir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.

„„Þá skal það jafnframt upplýst að Horn hefur í ljósi alvarleika málsins óskað eftir rannsókn lögreglu á því hvernig þessar trúnaðarupplýsingar komust í hendur DV,“ segir einnig í bréfinu. DV hafnaði kröfu Hermanns með bréfi sem sent var í gær.

Í því segir:

„Ritstjórar DV hafna alfarið ósk forsvarsmanns Horns, félags í eigu Landsbanka Íslands, um að skila gögnum sem varða Horn ehf. Ein af lykilástæðum höfnunarinnar er sú að með því gæti fjölmiðillinn verið að bregðast trausti heimildarmanna. Þá mun blaðið ekki verða við þeirri kröfu yðar frá því á föstudag að hætta umfjöllun á grunni umræddra gagna. Sú ákvörðun er ritstjórnar einnar að vega og meta eftir efnivið hverju sinni. Þar eru hafðir að leiðarljósi hagsmunir almennings og gagnsæi í restri eina ríkisbankans.“