Höskuldur Ásgeirsson hefur sagt upp starfi sínu sem framkvæmdastjóri fasteignafélags og rekstrarfélags Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík og tengdra félaga frá og með 1. febrúar 2012. Höskuldur tók við starfinu um mitt ár 2009 eftir endurskipulagningu verkefnisins við framkvæmdir og undirbúning rekstrar Hörpu.

Auglýst var eftir nýjum forstjóra Hörpu um síðustu helgi.

Fram kemur í tilkynningu um uppsögn Höskuldar að hann muni áfram starfs sem framkvæmdastjóri í fáeina mánuði eða þar til nýtt skipurit liggur fyrir og nýr forstjóri hefur verið ráðinn.

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður eignarhaldsfélags Hörpu, sagði í samtali við Morgunblaðið í byrjun vikunnar verið að einfalda félagastrúktúr Hörpu sem upphaflega var settur til að þjóna framkvæmdum og öðru slíku. Þeim sé lokið og þurfi nú að reka húsið.