Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka,  hóf störf í júní í fyrra. Hann segist hafa upplifað stemmninguna í bankanum þannig þegar hann byrjaði að starfsfólk hefði verið hvekkt og bankinn stefnulaus. „Við erum náttúrulega að koma út úr mjög erfiðum aðstæðum. Í þessum banka var líka miklu hraðar skipt út stjórnendalaginu en í hinum bönkunum.“

„Ég upplifi það að bankafólk er mjög barið eftir að hafa unnið mikla vinnu við erfiðar aðstæður. Það var ekki búið að búa til neina framtíðarsýn. Svo kemur ný stjórn, nýr bankastjóri, nýtt stjórnunarteymi. Við búum okkur til þessa framtíðarsýn sem er mjög einföld og skýr, og svo er það verkefnið að fylkja fólkinu að baki þeirri stefnu. Það gengur vel.  Hér er mikið af öflugu fólki. Það er líka sumt gott sem við tökum úr gömlu menningunni. Hér er baráttuandi og kjarkmikið fólk. Það eru hlutir sem við viljum halda í og virkja.

Þegar búið verður að innleiða okkar stefnu þá verður þetta alhliðabanki sem leggur mikla áherslu á mjög náið samband við sína viðskiptavini sem við ætlum að ná að bjóða stórt búðarborð. Við ætlum að bjóða þjónustu sem viðskiptavinir okkur virkilega vilja. Þeir eiga að vilja að vera hér í viðskiptum og fá góða og framsækna þjónustu á góðum kjörum.“

Ítarlegt viðtal er við Höskuld í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast það undir liðnum tölublöð hér að ofan.