Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun sækjast eftir fyrsta sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi fyrir komandi alþingkosningar í haust. Höskuldur greinir frá þessu í bréfi sem hann sendi flokksmönnum, en vitnað er í bréfið í frétt Vikudags .

Höskuldur mun því taka slaginn gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem einnig sækist eftir að leiða flokkinn í NA-kjördæmi.

Þá kemur einnig fram í bréfi Höskulds að hann vonast eftir því að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra muni gefa kost á sér til formennsku á komandi flokksþingi.

„Að mínu mati er hann ótvírætt best til þess fallinn að leiða Framsóknarflokkinn í komandi þingkosningum,“ segir Höskuldur í bréfinu.