Rekstraraðilar Hótels Brúar við Borgarnes, sem áður var þekkt sem Mótel Venus, hafa lýst yfir gjaldþroti, að því er segir í Skessuhorni. Í samtali við blaðið staðfestir eigandi mannvirkjanna, Guðmundur Hall Ólafsson, þetta. Hann hefur sjálfur tekið við rekstrinum tímabundið en segist bjartsýnn á að finna nýja rekstraraðila von bráðar, eða jafnvel nýja eigendur.

Hann segir í samtali við Skessuhorn að góðir tímar séu framundan í rekstrinum og að hótelið sé yfirbókað fram á sumar. Ekki sé útlit fyrir að staðnum verði lokað í kjölfar þessara breytinga. Guðmundur segir að það sem hái rekstrinum helst sé að geta ekki boðið upp á fleiri gistirými og myndi hann því vilja að húsið yrði stækkað.