Áttunda árið í röð býður Hótel Keflavík upp á fría gistingu á hótelinu í desember og styður þannig við verslun og þjónustu í Reykjanesbæ.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta og þar kemur fram að þetta uppátæki hótelsins mælist vel fyrir og þegar hafa hótelinu borist margar fyrirspurnir hvort þessi háttur verði ekki hafður á nú eins og áður.

Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir að hótelið ætli að styðja við verslun í Reykjanesbæ með því að bjóða upp á allt að 20 herbergi á dag sem gestir borga fyrir með því að framvísa kvittunum úr verslunum.

Gegn kvittun upp á 16.800 kr. fæst frí gisting í 2ja manna herbergi en sé framvísað kvittun upp á lágmark 20.800 krónur fæst gisting í fjölskylduherbergi. Að auki fylgir frír morgunmatur með gistingunni.

Í frétt Víkurfrétta er haft eftir Steinþóri að oft væri þörf en nú væri nauðsyn að Suðurnesjamenn stæðu saman og versluðu heima og fengju vini og ættingja til að koma til Suðurnesja og gera jólainnkaupin.

Tilboðið á Hótel Keflavík stendur frá 1. til 20. desember og allt að 20 herbergi eru í boði á sólarhring.