*

fimmtudagur, 20. júní 2019
Innlent 27. apríl 2018 09:16

Hótelgistingum fjölgaði um 5% í mars

Fjölgun á ársgrundvelli er 6%, en á sama tíma minnkar herbergjanýtingin vegna fjölgunar hótelherbergja.

Ritstjórn
Hótel Saga er eitt af eldri og þekktari hótelum borgarinnar, enda byggð fyrir bændur sem þurftu að sækja þjónustu í borgina.
Höskuldur Marselíusarson

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 5% í mars frá sama mánuði fyrir ári, og voru þær í heildina 375.900 að því er Hagstofan hefur tekið saman. Um 64% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 240.900. Um 88% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fjölgaði um 6% frá mars í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 3%.

Bandaríkjamenn gistu flestar nætur, eða 99.000, síðan Bretar með 86.200 og Þjóðverjar með 21.800, en gistinætur Íslendinga voru 43.900. Á tólf mánaða tímabili, frá apríl 2017 til mars 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.299.800 sem er 6% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýting dregst saman

Í marsmánuði í ár var herbergjanýtingin 4,3 prósentustigum en árið áður, það er hún fór í 70,1% úr 74,4% í mars 2017. Að sama skapi jókst framboð gistirýmis um 8,3%, mælt í herbergjafjölda. Nýtingin í mars var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 84,7%.

Hagstofan áætlar að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum skráðra gististaða hafi í mars verið um 606.600. Af þeim gistinóttum, sem eru áætlaðar af gististöðum skráðum í gistináttagrunn Hagstofunnar, má ætla að gistinætur erlendra gesta hafi verið um 540.800 og gistinætur Íslendinga um 65.800.

Auk hótela og gistiheimila er um að ræða s.s. farfuglaheimili, orlofshús, svefnpokagististaði, íbúða- og heimagistingu auk tjaldsvæða og skála í óbyggðum. Auk þess áætlar Hagstofan að fjöldi gistinátta í gegnum vefsíður á borð við AirBnB í mars hafi verið 107.000

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is