*

mánudagur, 30. mars 2020
Innlent 26. mars 2020 11:11

Hótelnýting lækkað um 90%

Hótelnýting dróst saman um 90% milli ára í Reykjavík á sunnudaginn. Verð hefur hinsvegar lækkað óverulega.

Ritstjórn
Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún.
Haraldur Guðjónsson

Nýting hótelherbergja í Reykjavík á tímabilinu 1. til 22. mars dróst saman um að meðaltali 42% frá því í fyrra, en langtum mestur samdráttur var í lok tímabilsins, og síðastliðinn sunnudag var nýtingin aðeins tíundi hluti þess sem hún var á sama degi í fyrra. Þetta kemur fram í fréttabréfi Ferðamálastofu.

Í upphafi mánaðar var samdrátturinn nokkuð stöðugur í um 20-25%, en frá 12. mars hefur nýtingin versnað samfellt á hverjum degi fram til þess 22., og hefur meðalaukning samdráttar milli daga numið 6,3%.

Í höfuðborgum annarra Norðurlanda og Eystrasaltslandanna hefur nýtingin dregist enn meira saman það sem af er mánuðinum. Mestur hefur samdrátturinn verið í Kaupmannahöfn, 56,6%, en landamærunum þar í landi var lokað fyrir öllum ferðamönnum þann 13. mars.

Á sama tíma hefur verð hótelherbergja dregist heldur hóflega saman í Reykjavík. Í athugun Ferðamálastofu á fjórum mismunandi gistinóttum, tveimur í apríl, einni í júní og einni í júlí, var mesti samdrátturinn 12% fyrir þá fyrstu, þann 14. apríl, en aðeins 4,5% fyrir gistingu þann 20. júní.

Stikkorð: hótelnýting