Nouriel Roubini, hagfræðingurinn víðfrægi, fer ófögrum orðum um framtíðarhorfur í pistli á vefsvæðinu Project Syndicate.

Roubini telur bjartsýni fjárfesta byggja á óstöðugum mörkuðum síðustu mánuði og muni margt verða til þess að daga úr hagvexti og kokhreysti þeirra á næstu mánuðum. Hann bendir á fjóra þætti sem sérstaklega beri að hafa í huga.

Í fyrsta lagi telur Roubini að bankakreppan á evrusvæðinu muni versna frekar. Evrópskir bankar séu að selja eignir til að reyna að minnka skuldsetningu en dýpki þeir með því niðursveifluna. Þá telur hann að þrátt fyrir að lausn virðist í augsýn á skuldavanda Grikklands muni stjórnmálakreppa þar í landi taka við og valda enn meiru ójafnvægi.

Í öðru lagi bendir Roubini á að blikur séu á lofti um samdrátt í Asíu og telur hann óhjákvæmilegt að hægja fari á hagvexti í Kína. Bæði út- og innflutningur, ásamt einkaneyslu og fjárfestnigu hafi dregist þar saman.

Þá segir Roubini stefna í samdráttarskeið í Bandaríkjunum. Því til viðbótar með búast við vaxandi óeirðum í Miðausturlöndum sem geti valdið því að olíuverð hækki frekar. Það muni svo hafa slæmar afleiðingar fyrir hagkerfi heimsins.

Roubini fullyrðir að þessi þættir muni draga kjarkinn úr fjárfestum sem hafi haldið því fram að efnahagslífið sé víða að rétta úr kútnum.

Þess má geta að Roubini virðist standa undir nafni en hann er þekktur undir viðurnefninu „Dr. Doom“ eða Hr. Dómsdagur í erlendum fjölmiðlum.