Háskólinn í Reykjavík og Tianjin University frá Kína undirrituðu í gær samstarfssamning á sviði orkumála. Samningurinn veitir nemendum skólanna tvöfalda námsgráðu á sviði orkuverkfræði og orkuvísinda.

Fram kemur í fréttatilkynningu að Tianjin háskólinn sé einn fremsti verkfræðiháskóli Kína og sá fremsti á sviði jarðhitanýtingar. Með samningnum munu nemendur skólans geta stundað nám við námsbrautir Íslenska orkuháskóla HR og útskrifast með meistaragráðu frá báðum skólum. Þá munu nemendur Íslenska orkuháskólans jafnframt fá tækifæri til að taka þátt í námi og rannsóknum sem gerðar eru í Kína.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, segir þróun endurnýjanlegra orkugjafa eitt mikilvægasta viðfangsefni jarðarbúa. „Ísland er í forystuhlutverki alþjóðlega í nýtingu endurnýjanlegrar orku og því höfum við dýrmæta þekkingu til að miðla til annarra þjóða, bæði í gegnum menntun og samstarf í þróun. Háskólinn í Reykjavík er í samstarfi víða um heim í miðlun þessarar sérþekkingar, en það er sérstaklega ánægjulegt að við skulum vera komin í náið samstarf við Tianjin háskóla í Kína. Stjórnvöld í Kína leggja áherslu á þróun endurnýjanlegrar orku og Tianjin háskóli, sem einn fremsti háskóli í tæknigreinum í Kína, mun gegna lykilhlutverki í þeirri þróun, segir Ari.