Hráolíuverð hefur tekið við sér á undanförnum dögum. Verð á tunnu af Brent hráolíu er komið upp í 84,5 dali á tunnu og hefur hækkað um 5,7% frá því á föstudaginn síðastliðinn.

Þá hefur verð á tunnu af WTI hráolíu hækkað um meira en 6% á sama tímabili og stendur nú í 78 dölum á tunnu.

Í frétt Reuters segir að hækkun olíuverðs skýrist helst af bjartsýni um aukna eftirspurn í Kína. Þá skýrist hækkunin einnig af áhyggjum af framboðsskorti í kjölfar lokunar á stórum útflutningsstöðvum eftir jarðskjálftana í Tyrklandi.

Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) spáir því að eftirspurn eftir olíu nái nýjum hæðum í ár vegna opnunar landamæra Kína í kjölfar afléttinga sóttvarnatakmarkana.