Óhætt er að segja að sérfræðingar leiti víða fanga í leit sinni að skýringum á hruni í þarsíðustu viku á hrávörumörkuðum heimsins. Eins og flestum þeim er á annað borð fylgjast með markaðsfréttum er sennilega kunnugt hefur hrávöruverð hækkað meira og minna allt þetta ár og stóran hlut þess síðasta líka. Talað hefur verið um bólu og víst er að hækkunin hefur haft mikil og neikvæð áhrif á lífskjör milljóna manna um heim allan.

Ein af afleiðingum hennar er m.a. arabíska vorið svokallaða, mótmælaalda sem riðið hefur yfir N-Afríku og Mið-Austurlönd og fellt einræðisherra á borð við Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, og Zine El Abidine Ben Ali, forseta Túnis. Þá er enn óljóst hver örlög Muammar Gaddafi, leiðtoga Líbýu, verða. Áhrifa hrávöruhækkana undanfarinna mánaða hefur ekki síður gætt hér á landi, sem dæmi má nefna hækkandi eldsneytisverð auk þess sem verðbólguvæntingar til skamms tíma hafa versnað til muna, svo gripið sé til tungutaks er hagfræðingum Seðlabankans er tamt.

Í síðustu viku gerðist hins vegar eitthvað sem menn eru enn að reyna að melta. Allt hófst með því að verð á silfri tók að hríðfalla á mánudeginum, sem var fyrsti viðskiptadagur maímánaðar en aprílmánuði lauk með því að silfurverð var það hæsta í 31 ár, eða 4.859,1 sent/ únsu . Eins og frá var greint í Viðskiptablaðinu í þarsíðustu viku lækkaði verð um rúm 5% á mánudeginum og hélt svo áfram að lækka og þegar vikunni lauk hafði silfrið lækkað um rúm 1.330 sent/únsu eða rúm 27,3%. Á einni viku.

Hrávörur
Hrávörur
© vb.is (vb.is)

Fyrst um sinn notuðu menn hina hefðbundnu skýringu, þ.e. hagnaðartaka spákaupmanna, en þegar verðið tók ekki að hækka á ný var leitað nýrra skýringa. Ein var sú að Mexíkaninn Carlos Slim Helú, auðugasti maður heims, væri að selja silfur í stórum stíl en hann ræður yfir auðugum silfurnámum. Alltént hélt silfrið áfram að lækka og þegar leið á vikuna tók það að draga aðrar hrávörur með sér í fallinu.

Hagnaðartaka?

Einu virðist gilda hvaða vöru var litið til, ef hún getur talist hrávara þá lækkaði hún í verði, undantekningin var losunarkvótar, og á fimmtudeginum virtist allt geta gerst þegar botninn datt úr olíuverðinu. Á einum degi lækkaði verð á olíu af Brentsvæðinu í Norðursjó um tæp 8,6% og systir hennar af svæðinu í kringum Mexíkóflóa (WTI-olía) lækkaði aðeins meira, um rúm 8,6%.

Ljóst var að fjárfestar voru farnir að selja hrávörur í stórum stíl en hvort um var að ræða hagnaðartöku var enn á huldu. Eitthvað af skýringunni á fallandi olíuverði virtist þó reyndar að finna í hækkandi gengi dollars gagnvart evru, olíuverð sveiflast yfirleitt alltaf í samræmi við gengi dollars enda vilja olíukaupmenn fá sitt.

Innan úr herbúðum greiningarfyrirtækisins Standard & Poor’s (þó við Íslendingar þekkjum S&P öðru fremur sem matsfyrirtæki þá er það síður en svo eini búskapurinn sem þeir stunda) kom þó hugsanleg skýring um miðja síðustu viku: Allt var þetta dauða Osama bin Laden að þakka.

Dregur úr áhættu

„Dauði Osama mun styrkja dollarann og bandarískan hlutabréfamarkað og draga úr þeirri áhættu sem talin er tengjast hrávörum. Fyrir vikið mun hrávöruverð, og hráolíuverð, lækka,“ sagði í einni af markaðspám S&P sem sænski viðskiptavefurinn di.se vitnar í.

Jafnframt segir í frétt vefjarins að fleirum hafi dottið þessi sama skýring í hug um svipað leyti og er hún síður en svo fráleit.

Framtíðin getur hins vegar ein leitt í ljós hvort það var dauðdagi Osama bin Laden, sprungin hrávörubóla eða bara einföld hagnaðartaka spákaupmanna sem olli því að hrávörur lækkuðu svo mikið í verði í liðinni viku.

Á föstudaginn 7. maí dró verulega úr fallinu og sumar vörur, þ.m.t. gull, hækkuðu á ný og sömu sögu er að segja af upphafi þessarar viku sem rennir stoðum undir kenningar um hagnaðartöku fjárfesta, eða spákaupmanna.

Hrávörubólan virðist því ekki sprungin enn sem komið er en þeir eru þó til sem telja það munu gerast fyrr en síðar. Ef til vill má orða það sem svo að ytra byrði bólunnar sé farið og loft farið að leka út; lækkunin í síðustu