Hrávörur hafa almennt lækkað hratt undanfarnar vikur. Á það við um málma, matvæli og aðrar hrávörur. Þetta kemur fram í umfjöllun IFS, sem er ráðgjafafyrirtæki á sviði fjármála og greininga.

Þar segir að verðið hafi lækkað samhliða versnandi hagvaxtarhorfum. Margt bendi til þess að einskonar bóla hafi myndast fyrr á árinu þegar fjárfestar hófu að horfa í vaxandi mæli til hrávara þegar ávöxtun á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði versnaði.

Með versnandi horfum í heimsbúskapnum á síðustu mánuðum hefur spurn eftir flestum hrávörum minnkað og því hafa fjárfestar dregið úr stöðutöku á hrávörumörkuðum, segir í umfjöllun IFS. Þá segir að flestar spár markaðsaðila bendi til þess að verð á mörgum hrávörum sé nú mjög lágt horft nokkur ár fram í tímann.