Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings fékk um 110.548 krónur greiddar í laun eða bónus fyrir hverja klukkustund ársins 2006. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem birtist á mánudag.

Laun og kaupaukar

Laun „lykilstarfsmanna“ Kaupþings, eins og þeir voru kallaðir í starfsmanna og launastefnu bankans, skiptust í föst laun og kaupauka sem voru greiddir út tvisvar á ári til starfsmanna tekjusviða, en einu sinni á ári til starfsmanna stoðsviða. Við ákvörðun á bónusgreiðslum var tekið tillit til rekstarárangurs bankans í heild sem og viðkomandi deildar samkvæmt starfsmannastefnunni. Laun starfsmanna eru birt í skýrslunni sem meðallaun á mánuði.

Skilyrði þess að bónus yrði greiddur var að markmið um 15% arðsemi eigin fjár bankans næðust. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis voru laun launahæstu starfsmanna bankanna birt á raunvirði miðað við árið 2008. Þar er tekið tillit til bæði fastra launa og bónusa, en ekki annarra fríðinda svo sem kauprétta á hlutabréfum. Þeir hlupu oftar en ekki á milljörðum króna.

Hjá Kaupþingi trónir Hreiðar Már Sigurðsson, þá forstjóri bankans, á toppnum yfir launahæstu starfsmennina á árunum 2006-2008.  Mest fékk hann greitt árið 2006 þegar ,mánaðarlaun hans voru 80,7 milljónir króna, sem þýðir að hann var með tæpan milljarð króna í árslaun. Ef miðað er við að Hreiðar hafi verið í vinnunni allan sólarhringinn, líkt og bankamenn fullyrtu oft að þeir væru, þá þénaði hann 2,7 milljónir króna fyrir hvern dag það árið. Fyrir hvern klukkutíma, hvort sem hann var vakandi eða sofandi, fékk Hreiðar 110.548 krónur, eða 1.842 krónur á mínútu. Það þýðir að Hreiðar fékk tæpa 31 krónu á sekúndu það árið.

Laun Hreiðars Márs á árunum 2006-2008

á ári                á mánuði         á dag            á klukkutíma    á mínútu      á sekúndu

2006 968,4 millj.    80,7 millj.         2,7 millj.        110.548 kr.      1.842 kr.       30,7 kr.

2007 906,4 millj.    75,6 millj.         2,5 millj.        103.470 kr.      1.725 kr.       28,7 kr.

2008 586,8 millj.    48,9 millj.         1,6 millj.         67.067 kr.        1.118 kr.      18,6 kr.