Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings banka og Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður bankans, hafa hvor um sig nýtt kauprétt að 1.624.000 hlutum í bankanum á genginu 303 kr. á hlut í samræmi við kaupréttaráætlun sem samþykkt var á aðalfundi bankans 27. mars 2004, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Auk þess hafa Hreiðar Már og Sigurður hvor um sig í dag keypt 1.000.000 hluti í bankanum á genginu 740 krónur á hlut.

Hreiðar Már hefur fengið heimild stjórnar bankans og regluvarðar til stofnunar einkahlutafélags sem mun verða að fullu í hans eigu. Hreiðar Már hefur ákveðið að nýta þessa heimild fyrir 10. maí næstkomandi og færa yfir til félagsins alla eignarhluti sína.

Hreiðar Már Sigurðsson á 5.423.239 hluti í bankanum eftir viðskiptin og á nú kauprétt að 1.624.000 hlutum í bankanum. Aðilar fjárhagslega tengdir Hreiðari Má eiga 148.800 hluti í bankanum og eiga réttindi að 205.078 hlutum í bankanum samkvæmt framvirkum samningi.

Sigurður Einarsson á 6.368.423 hluti í bankanum eftir viðskiptin. Hann á nú kauprétt að 1.624.000 hlutum í bankanum. Aðilar fjárhagslega tengdir Sigurði eiga 14.111 hluti í bankanum.