Hreinar þóknanatekjur KB banka námu 16.225 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 8.030 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2004. Hreinar þóknanatekjur KB banka á þriðja ársfjórðungi námu samtals 6.862 m.kr. og jukust um 212,4% miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Þessi aukning skýrist að mestu leyti af miklum vexti í þóknanatekjum hjá Fyrirtækjaráðgjöf, sem lauk nokkrum stórum verkefnum á ársfjórðungnum, og af þóknanatekjum frá Singer & Friedlander.

Hreinar rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins námu samtals 68.855 m.kr. og jukust um 94,5% miðað við sama tímabil í fyrra. Hreinar rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu samtals 22.909 m.kr. og
jukust um 49,6% miðað við sama tímabil 2004. Þar af námu hreinar rekstrartekjur Singer & Friedlander á þriðja ársfjórðungi 3.802 milljónum króna. Hreinar vaxtatekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 23.180 m.kr. samanborið við 11.749 m.kr. á fyrstu níu mánuðum 2004 sem er 97,3% aukning milli tímabila. Hreinar vaxtatekjur á þriðja ársfjórðungi námu samtals 9.487 m.kr. og jukust um 85,4% miðað við sama ársfjórðung í fyrra.