Greiningardeild Glitnis birtir útreikninga í Morgunkorni sínu sem leiða líkur að því að söluhagnaður FL Group vegna sölu á Icelandair geti numið um 21-25 milljörðum króna.

Það samsvarar því að heildarvirði félagsins nemi áttfaldri EBITDA og að vaxtaberandi skuldir að teknu tilliti til sjóðsstöðu nemi 16-20 milljörðum króna. Verði þetta niðurstaðan fyrir FL Group má gróflega áætla að eigið fé félagsins nemi 140-144 milljörðum króna. Þá er ekki tekið tillit til hagnaður/taps á yfirstandandi ársfjórðungi og breytinga í virði efnahagsliða. Markaðsvirði FL Group er nú 193 milljarðar kr. og því má gróflega áætla miðað við gefnar forsendur að verðkennitalan markaðsvirði á móti eigin fé (V/I) sé um það bil 1,35 segir í Morgunkorni.

Greiningardeildin birtir útreikninga um mögulegan söluhagnað FL Group að gefnum mismunandi forsendum. Fram hefur komið hjá stjórnendum FL Group að Icelandair sé bókfært á rúma 8 milljarða kr. og að stefnt sé að því EBITDA ársins verði sem næst 5,9 milljörðum kr. á þessu ári og að vonir standi til þess að enn betur takist til á næsta ári. Við útreikning á söluhagnaði FL Group er hér miðað við verðkennitöluna heildarvirði (e. enterprise value, EV) á móti EBITDA. Með því að nota mismunandi margfaldara má finna heildarvirði félagsins en til að finna söluhagnað FL Group þarf að draga frá því bókfært virði félagsins og vaxtaberandi skuldir að teknu tilliti til áætlaðrar sjóðsstöðu. Í þessum útreikningum er miðað við að vænt EBITDA næsta árs sé 6,2 milljarðar kr. og að bókfært virði Icelandair Group sé 8,5 milljarðar kr. Í þessum útreikningum er ekki tekið tillit til kostnaðar við sölu félagsins og skattlagningar af söluhagnaði.

Þess má geta að FL Group er stærsti hluthafi Glitnis banka með 20,03% eignarhlut.