*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 29. ágúst 2020 13:09

Hreinsað markaðinn innanlands

Erfitt gæti reynst fyrir Kviku banka að lækka eiginfjárhlutfall sitt en ytri vöxtur félagsins hefur verið mikill undanfarin ár.

Alexander Giess
Marinó Örn Tryggvason var ráðinn forstjóri Kviku banka í fyrra eftir að hafa gegnt stöðu aðstoðarforstjóra frá 2017.
Aðsend mynd

Arðsemi eiginfjár hjá Kviku banka nam 15,1% á öðrum ársfjórðungi og 11,8% á fyrri helmingi ársins. Eiginfjárhlutfall bankans er ríflega 26% og ef marka má orð forstjórans mun það koma til með að lækka. Undanfarin ár hefur ytri vöxtur félagsins verið mikill og telur forstjóri félagsins ekki endilega jafn mikil tækifæri í þeim efnum og áður.

Félagið mun koma til með að auka áherslu sína á fjártækni en það hefur nýlega gefið út viljayfirlýsingu á kaupum á Netgíró. Enn fremur er unnið að aukinni samþættingu á eigna- og sjóðstýringarstarfseminni með komu Kviku eignastýringu. Síðustu þrjú ár hafa þóknanatekjur félagsins sem hlutfall af rekstrartekjum vaxið úr 56% í tæplega 73%.

Stefnt að lækkun eiginfjárhlutfallsins en óvissa um hvernig

Á fjárfestakynningu félagsins, í kjölfar árshlutauppgjörs, brýndi forstjórinn fyrir fólki að markmið bankans væri að lækka eiginfjárhlutfall þess, sem stendur í 26% samanborið við 21% eiginfjárkröfu. Hvernig það mun fara fram er hins vegar óvíst.

Ekki liggur fyrir hvort félagið megi greiða út arð eða kaupa eigin bréf á árinu, sökum tilskipana frá Seðlabankanum. Marinó telur að útgáfa víkjandi skuldabréfa muni líklegast bera háa ávöxtunarkröfu í núverandi ástandi og því ekki endilega hagkvæmasti kosturinn. Spurður hvað sé best í stöðunni segir Marinó mikilvægt að meta tækifærin jafnt og þétt.

„Eiginfjárhlutfallið okkar er mjög sterkt. Við þurfum því annaðhvort að skila hluthöfum þeim fjármunum, þróa reksturinn áfram eða bæði. Í þeim efnum höfum við val á að stækka núverandi rekstur eða ráðast í kaup á félögum,“ segir Marinó. Hann bætir við að ytri vöxtur félagsins hafi verið mikill undanfarin ár og því ekki endilega mörg tækifæri í þeim efnum hérlendis. Marinó vildi ekki tjá sig nánar um hvað félagið hyggst gera. Sem dæmi um ytri vöxt félagsins hefur Kvika síðustu ár keypt GAMMA, Beringer og Virðingu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.