Húnavatnshreppur hefur stefnt Þjóðskrá Íslands og Landsvirkjun, en sveitarfélagið krefst ógildingar á úrskurði yfirfasteignamatsnefndar (YFN) í máli sem varðar stöðvarhús Blönduvirkjunar. Falli dómur í málinu stefndu í óhag gæti það þýtt að áratugalangri framkvæmd yrði vikið til hliðar.

Sem kunnugt er ber lögum samkvæmt að halda skrá um allar fasteignir hér á landi og meta þær til verðs eftir því sem næst verður komið á hverjum. Umrætt fasteignamat er síðan grundvöllur fasteignagjalda sem sveitarfélög leggja á eignir innan sveitarfélagamarka.

Meginreglan er að byggja matið á markaðsaðferð, það er gangverði eignar út frá kaupsamningum, en einnig er hægt að byggja mat á svokallaðri tekjuaðferð. Þar byggir matið á tekjustraumi sem af eign stafar og er meðal annars brúkað á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Sé hvorug aðferðin til þess fallin að gefa rétta mynd af virði eignar má nýta kostnaðarmat, en þá er lagt mat á byggingarkostnað. Eingöngu kemur til greina að beita því þegar enginn markaður, hvorki hvað sölu eða leigu varðar, er til staðar fyrir húsið.

Í tilfelli stöðvarhúss Blönduvirkjunar hefur markaðsleiðréttu kostnaðarmati verið beitt, það er framreiknaður byggingarkostnaður þess, samkvæmt útreikningum eiganda, á verðlagi októbermánaðar 1993 auk afskrifta. Upphaflegt fasteignamat hússins var 2.544 milljónir króna en af því voru 36,48% álagningarhæf til fasteignagjalda. Ástæðan fyrir því er að rafveitur, þar á meðal flutningslínur, burðarstólpar og spennistöðvar, eru undanþegnar álagningu þeirra en í framkvæmd hafa hlutar stöðvarhúsa, það er að segja þeir sem framleiða sjálft rafmagnið, verið taldir til rafveitna.

Sumarið 2017 óskaði Húnavatnshreppur eftir því að endurmat færi fram á stöðvarhúsinu, þar sem sveitarfélagið taldi að matið væri ekki lögum samkvæmt. Í svari Þjóðskrár kom fram að fram undan væri vinna við að taka fasteignamat virkjana til heildstæðrar endurskoðunar. Af henni hefur þó ekki orðið. Endurmat Þjóðskrár lá fyrir í apríl 2020, en það byggði á upplýsingum frá Landsvirkjun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .