„Þessi hröðu viðbrögð innlenda verðlagsins eru auðvitað vonbrigði,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins aðspurður um viðbrögð við hárri verðbólgu en sem kunnugt er birti Hagstofan í morgun tölur um hækkun neysluvísitölu og er 12 mánaða verðbólga nú 11,8%.

„Þetta kom á óvart hvað þetta var mikið. Maður bjóst ekki við að gengisbreytingarnar hefðu svona fljótt áhrif á verðlagið. Þetta kemur greinilega hraðar inn en gert hafði verið ráð fyrir, en þetta verður þá væntanlega minna næst,“ segir Hannes í samtalið við Viðskiptablaðið.

Aðspurður um hvort kjarasamningar séu í hættu vegna mikillar verðbólgu segir Hannes að búast megi við því að það muni reyna á forsenduákvæði þeirra sem tekið verður til skoðunar eftir áramótin.

„Maður hins vegar veit ekki hvernig gengi krónunnar mun koma til með að þróast. Það er óvíst  að gengisvísitalan verði 150 stig lengi og krónan gæti styrkst á ný og þetta því gengið til baka að einhverju leyti. Þannig að lokum er óvíst hvort það verða mikil frávik frá samningsmarkmiðum. Maður verður samt vondaufur þegar verðbólgan er svona mikil,“ segir Hannes og minnir á að tímasetning gengisfalls krónunnar sé óheppileg því á sama tíma hafi verð á bæði olíu og öðrum hrávörum hækkað mikið erlendis.