Á fundi framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins í dag var samþykkt beiðni þingmannasendinefndar Íslands um að taka til umræðu á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins, sem fer fram á morgun, aðgerðir breskra stjórnvalda gagnvart íslenskum bönkum þar í landi og tilheyrandi yfirlýsingar breskra ráðamanna í fjölmiðlum.

Beiðnin var lögð fram í nafni bæði aðal- og varamanna sem eiga sæti í sendinefnd Alþingis á Evrópuráðsþinginu. Flutningsmaður beiðninnar var Steingrímur J. Sigfússon sem situr fundinn í Madríd fyrir hönd Alþingis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alþingi.

„Beiting hryðjuverkalöggjafar Bretlands í tilviki Landsbankans og aðgerðir breskra stjórnvalda gagnvart Kaupþingi verða teknar til umræðu í ljósi afleiðinga þeirra aðgerða fyrir íslenska fjármálakerfið, fyrirtæki og hagkerfið í heild," segir í tilkynningunni.

„Þá verður athyglinni sérstaklega beint að hugsanlegri misbeitingu bresku hryðjuverkalaganna og þess slæma fordæmisgildis sem af beitingu slíkra laga getur almennt hlotist þegar gripið er til þeirra í öðrum tilvikum en þeim þar sem raunverulega er um að ræða baráttuna gegn hryðjuverkum."