HS Orka tapaði 374 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi, en fyrirtækið birti uppgjör fyrir tímabilið í gærkvöldi. Er það öllu verri afkoma en á sama tíma fyrir ári þegar fyrirtækið hagnaðist um 75 milljónir króna.

Rekstartekjur fyrirtækisins hækkuðu um 9% og námu 2.076 milljónum á tímabilinu, samanborið við 1.899 m.kr. á fyrsta fjórðungi ársins 2014. Lækkun á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) er 604 m.kr. á tímabilinu en var 708 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2014. Gengistap var 388 m.kr. á fjórðungnum, samanborið við gengishagnað upp 226 m.kr. á sama tímabili 2014.

EBITDA er alls 790 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2015 en var 828 m.kr. á sama tímabili 2014. Eiginfjárhlutfall 31. mars 2015 var 57,7% en var í árslok 2014 59,7%.