Að sögn Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns getur íslenska ríkið bakað sér hreina skaðabótaábyrgð ef Davíð Oddssyni seðlabankastjóra verður vikð frá völdum án málefnalegra ástæðna.

„Mér sýnist að með lögunum um Seðlabankann hafi verið verið ætlunin að tryggja sjálfstæði hans gagnvart ríkisvaldinu. Ríkisvaldið sé þannig að ganga á það sjálfstæði með því að gera þær breytingar, nánast til þess að koma einum manni í burtu þó þeir gætu reynt að breiða yfir það með öðrum skipulagsbreytingum eins og sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Þá þurfa að vera sterk efnisleg rök fyrir því sem ég hef hvergi séð. Það voru sterk rök fyrir því að aðskilja þessar tvær stofnanir, bæði þótti eðlilegt að þær væru sjálfstæðar og þannig væru þær öflugri og svo framvegis. Mér finnst engin málefnaleg rök hafa komið fram fyrir að breyta því.

Ef ný ríkisstjórn telur að það sé lífsspursmál að Seðlabankastjórinn fari frá völdum verður að semja við hann um starfslok. Ef þeir gera slíka breytingu hefur hann alltaf rétt á bótum. Að vísu veit maður ekki hvaða aðferðir þeir ætla að nota við þetta.”

Sigurbjörn benti á að lögin um Seðlabankann tryggðu bankanum og stjórn hans ákveðið sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu auk þess sem hann nýtur verndar sem opinber starfsmaður. ,,Þetta tvennt skapar honum mjög sterka stöðu. Ég á erfitt með að sjá að þeir geti gert þetta bótalaust. Auðvitað geta þeir ákveðið að það verði einn Seðlabankastjóri og auglýst stöðuna en þá þarf ríkisvaldið að borga fyrir það.”

Sigurbjörn taldi að það gæti orðið dýr lausn þar sem ekki væri um að ræða beinar ávirðingar um brot í starfi og seðlabankastjórarnir hafi ekki fengið neina áminningu. Hann taldi því að hér gæti verið um að ræða flókið úrlausnarefni.

Hann benti á að allt hefði verið gert til að tryggja sjálfstæði Seðlabankans. Þannig væri bankaráð ekki kosið fyrr en eftir alþingiskosningar.

„Ég álít að ríkið geti bakað sér hreina skaðabótaskyldu nema það séu málefnalegar ástæður fyrir skipulagsbreytingum sem hafi verið unnið að í einhvern tíma. Eins og yfirlýsingar bera með sér virðist þetta bara vera gert til þess að einn maður eigi að víkja úr bankanum og það verður aldrei málefnalegt.”