Kortafyrirtækið Valitor hefur náð samningum við breska fyrirtækið White Eagle Plc um útgáfu á fyrirframgreiddum kreditkortum fyrir Bretlandsmarkað. Samstarfið tekur bæði til útgáfu á kortum fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Í tilkynningu um málið frá Valitor segir að starfsemi félagsins í Bretlandi verði víðtækara og fjölbreyttari við undirritun samstarfssamningsins, meðal annars vegna þess að við bætist útgáfa á kortum til einstaklinga. White Eagle sérhæfir sig í umsýslu kortaverkefna af ýmsum toga í Evrópu.

Sérfræðingar Valitors hafa þróað hugbúnað sem nýtur vaxandi eftirspurnar í Bretlandi. Um er að ræða útgáfukerfi fyrir greiðslukort. Að sögn Valitors er góð reynsla komin á kerfið hér á landi. „Valitor lét reyna á markaðssetningu á hugbúnaðinum á breskum markaði í fyrra í samstarfi við þarlendan aðila og Visa í Evrópu og hafa viðbrögð verið mjög góð. Um er að ræða útgáfu á fyrirframgreiddum (e. prepaid) kortum, jafnt sýndarkortum sem og hefðbundnum greiðslukortum,“ segir í tilkynningu.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.