Hiroshi Yamauchi, sem gjarnan er þakkað fyrir að breyta Nintendo úr borðspilaframleiðanda í alþjóðlegan tölvuleikjarisa, er auðugasti maður Japans samkvæmt úttekt Forbes. Auðæfi Yamauchi eru metin á 7,8 milljarða dollara. Guardian greinir frá þessu í vikunni.

Ríkidæmi Yamauchi tók stökk á síðasta ári og jókst um þrjá milljarða dollara. Helsta ástæða þess er velgengi hinnar nýju Wii-leikjatölvu frá Nintendo.

Ríkasti maður Japans á síðasta ári situr nú í öðru sæti. Sá heitir Akira Mori og er metinn á 7,7 milljarða dollara. Mori á hótel, íbúðir og annars konar fasteignar á nokkrum dýrustu staðsetningunum í Tokyo.

Hinn nýsamantekni listi er talinn endurspegla þau vandamál sem Japan horfist í augu við í dag. Listinn samanstendur nánast aðeins af eldri mönnum, en ungir athafnamenn og konur eiga erfitt uppdráttar í japönsku viðskiptalífi. Meðalaldur 40 efstu á listanum er 66 ár, en til samanburðar er sú tala 56 í Indlandi, 48 í Kína og 46 í Rússlandi.

Eina konan meðal 10 efstu á listanum er Hiriko Hakei, sem erfði mann sinn. Tvær aðrar konur eru í efstu 40 sætunum.