Að sögn Hjörleifs Jakobssonar, forstjóra Kjalars ehf., er fjárfesting félagsins í Granda hf. langtímafjárfesting. Fyrr í dag var greint frá því að Kjalar hefði keypt 33% hlutafjár í Granda af Kaupþingi en bankinn hafði verið að byggja stöðuna upp um nokkurn tíma.

Gengið í kaupunum er 12,5 og keyptir eru 563.664.658 hlutir þannig að kaupverðið er ríflega sjö milljarðar króna.

Hjörleifur sagði aðspurður að Kjalar hefði áður komið að fjárfestingum í sjávarútvegi og hefði góða reynslu af því, meðal annars í gegnum Olíufélagið og Ker. Þar á meðal tiltók hann m.a. félög eins og Vinnslustöðina og Vísi í Grindavík. Félagið ætti í dag hluti í Odda á Patreksfirði og Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

?Við teljum að þetta sé mjög áhugaverð fjárfesting og horfum á hana til langs tíma. Við teljum að það búi töluvert í þessu félagi auk þess sem við teljum þetta spennandi atvinnugrein. Einnig má segja að þetta bæti áhættudreifingu á okkar eignasafni en stærstu eignir Kjalars eru meðal annars tæplega 10% hlutur í Kaupþingi auk meirihluta hlutafjár í Samskipum og tæp 40% hlutar í Alfesca.?

Kaupin eru gerð í nafni Kjalars ehf. Unnið er að sameiningu Kjalars og Kers undir heiti Kjalars hf.