Hugsmiðjan hefur samið við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, um veflausnir fyrir samtökin.

Skammt er síðan Hugsmiðjan samdi við evrópsk samtök á heilbrigðissviði gegn svikum og spillingu í Evrópu (European Healthcare Fraud & Corruption Network) en báðar þessar stofnanir eru staðsettar í Brussel.

Í samningnum við ESA felst að Hugsmiðjan sér um allar veflausnir fyrir stofnunina sem verða keyrðar í Eplica vefumsjónarkerfinu sem er alíslensk hönnun.

„Þetta er enn og aftur mikil viðurkenning á íslensku hugviti og erum við hjá Hugsmiðjunni sæl og glöð með að hafa fengið þetta mikilvæga verkefni. Um leið er þetta mikil áskorun og hvetur okkur áfram til dáða,“ er haft í tilkynningu eftir Ragnari Marteinssyni, framkvæmdastjóra Hugsmiðjunnar.

Fjögurra manna sendinefnd kom frá Brussel í vikunni og voru samningar undirritaðir í húsakynnum Hugsmiðjunnar að Snorrabraut 56 í Reykjavík.