Landspítalinn átti hvorki fyrir launum starfsfólks né lyfjum fljótlega eftir að bankarnir fóru í þrot í október árið 2008. Þetta segir Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans á þessum tíma. Hulda ræddi um málið í samtali við norska dagblaðið Aftenposten og staðfesti það í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hún ákvað í samráði við æðstu stjórnendur sjúkrahússins að halda fjárþurrðinni leyndri fyrir bæði starfsfólki og sjúklingum á spítalanum.

Hulda segir í samtali við norska dagblaðið að þegar peningar voru ekki til að standa undir rekstrinum þá hafi tekist að fá tryggingu fyrir þeim hjá velferðar- og fjármálaráðuneytunum.

Jafnframt segist Hulda hafa lagt sig fram um að hitta sem flesta á sjúkrahúsinu, borða í mötuneytinu, og láta sem ekkert væri.

Felldi tár út af nýju sjúkrahúsi

Hulda kemur í viðtalinu við Aftenposten jafnframt inn á byggingu nýs Landspítala sem var á teikniborðinu þegar hún tók við starfinu hér sumarið 2008. Hún segir að þrátt fyrir fjármálakreppu og búsáhaldabyltingu í kjölfar hennar þá hafi hún haldið áfram að vinna að því að gera nýjan spítala að veruleika.

„Við þurftum að minna okkur á að sú stund myndi renna upp að við komumst í gegnum kreppuna. Þegar ég hafði flutt til Noregs og sá í sjónvarpinu að búið væri að skrifa undir samninga um byggingu spítalans þá féllu ár,“ segir hún.