*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Erlent 6. apríl 2021 18:04

Huldukýr kosta sláturrisa stórfé

Tilhæfulausir reikningar til að bjarga sér úr misheppnuðum afleiðuviðskiptum kosta einn stærsta matvælaframleiðanda heims háar fjárhæðir.

Ritstjórn
epa

Bandaríski matvælaframleiðandinn Tyson Foods, áttaði sig á því seint á síðasta árs að félagið ætti tvö hundruð þúsund færri kýr í Washington ríki en það hafði áður talið. Í kjölfarið komst upp um svikamyllu sem kostaði félagið og annan ónafngreindan matvælaframleiðanda um 244 milljónir dollara, jafnvirði um 28 milljarða króna, að því er Bloomberg greinir frá.

Tyson Foods er næst stærsta fyrirtæki heims á sviði alifugla-, svína- og nautgripaeldis og slátrun. Fyrirtækið áttu í viðskiptum við félagið Easterday Ranches í Pasco í Washington ríki, í það minnsta frá árinu 2010, en það félag var rekið af Bandaríkjamanninum Cody Easterday. Tyson greiddi Easterday Ranches fyrir að kaupa og ala upp nautgripi til slátrunar.

Umræddur Cody átti samhliða því að reka kúabú í umfangsmiklum afleiðuviðskiptum með nautgripi og korn. Afleiðuviðskiptin gengu illa og talið er að frá árinu 2015 hafi Cody farið að fjármagna tap sitt á afleiðuviðskiptunum með því gefa út tilhæfulausa reikninga á hendur Tyson. Þá laug hann að kauphöllinni í Chicago, stærsta markaðstorgi heims með landbúnaðarafurðir, um hve margir nautgripir væru á búum hans.

Cody játaði sekt sína í málinu í síðustu viku samkvæmt tilkynningu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu og hefur heitið því að endurgreiða féð. Hann á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi vegna málsins.

Easterday Ranches, var lýst gjaldþrota eftir að málið kom upp og þeir 50 þúsund nautgripir sem raunverulega voru á búum félagsins voru nálægt því að svelta áður en skiptastjóri tók við búinu.