Hundrað fyrirtæki hafa kynnt starfsemi sína á fjárfestaþingi Seed Forum Iceland á síðastliðnum fjórtán þingum. Þingin eru haldin tvisvar á ári og verður blásið til þess næsta á föstudag.

Sjö fyrirtæki kynna sig fyrir fjárfestum á þinginu á föstudag, þar af sex íslensk. Á meðal fyrirtækjanna er leikjafyrirtækið Plain Vanilla sem gaf á dögunum út tölvuleikinn Moogies fyrir iPad-spjaldtölvur og iPhone-farsíma.

Af fyrirtækjunum hundrað sem hafa kynnt sig fyrir fjárfestum eru sjötíu íslensk iog þrjátíu erlend. Á meðal þeirra eru Orf líftækni, CCP, Gogogic, Caoz og fleiri.

Fyrsta Seed Forum Iceland þingið var haldið 28. apríl 2005 en tvö þing eru haldin árlega, að vori og hausti, að því er fram kemur í tilkynningu.

Eftirfarandi íslensku fyrirtæki kynna starfsemi sína fyrir fjárfestum. Þau eru:

  • Plain Vanilla - leikjafyrirtæki sem sérhæfir sig í tölvuleikjum fyrir iphone og ipad fyrir krakka
  • Virtual Game Worlds - leikjafyrirtæki sem sérhæfir sig í samfélagslegum tölvuleikjum
  • IC Game House - leikjafyrirtæki sem sérhæfir sig í borðspilum
  • 4x4Offroads.com - samfélagsvefur fyrir jeppaáhugafólk
  • Reliant Exams - Hugbúnaðarfyrirtæki sem hefur þróað prófakerfi fyrir skóla
  • Ella - tískuvörufyrirtæki með íslenskan hátískukvenfatnað

Ian Whitting, sendiherra Bretlands hér á landi, mun opna þingið en erindi halda þau Hjálmar Ragnarsson, rektor listaháskólans, Marina Candi, dósent við HR, Guðmundur F. Sigurjónsson, starfandi stjórnarformaður Kerecis og Helgi Bjarnason, framkvæmdastjóri hjá Arion Banka.