Nýsköpunarfyrirtækið Lauf forks hf. lauk í síðastliðinni viku hlutafjáraukningu að fjárhæð 100 milljónir króna. Fjármagninu er meðal annars ætlað að standa straum af aukinni markaðssókn og vöruþróun, að því er fram kemur í tilkynningu.

Lauf forks hannar, framleiðir og selur léttasta reiðhjólademparagaffal í heimi, að sögn fyrirtækisins. Gaffallinn nýtur einkaleyfaverndar og kemur fram í tilkynningu að vænst sé að einkaleyfi verði endanlega í höfn á helstu mörkuðum innan nokkurra mánaða.

„Lauf forks hefur þegar gert samninga við dreifingaraðila í ríflega 30 löndum og selur jafnframt beint til hjólreiðamanna og keppnisliða um allan heim. Fjallahjólagaffall fyrirtækisins, Lauf Trail Racer, öðlast jafnt og þétt viðurkenningu hjólaheimsins og hefur skilað verðlaunasætum í fjölda hjólakeppna hér heima og erlendis.,“ segir í tilkynningunni.

Dagana 26. til 29. júní næstkomandi mun á fjórða tug erlendra gesta koma til Íslands á vörukynningu Lauf forks, þar sem Lauf Carbonara gaffallinn verður formlega kynntur og önnur ný útgáfa demparagaffalsins.