Greinendur hjá fjárfestingabankanum HSBC mæla með að fjárfestar selji bréf sín í Facebook en bréf samfélagsmiðlarisans eru metin á 178 dollara á hlut í nýju verðmati á fyrirtækinu sem er um 10% undir núverandi gengi á bréfum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í frétt CNBC .

Að mati greinenda hjá bankanum steðjar mikil ógn að Facebook fari svo að fyrirtækinu verði settar íþyngjandi reglugerðir hvað varðar samkeppni, skatta, persónuvernd og samruna svo fátt eitt sé nefnt. Telja greinendur að áhættan sem í þessu felst nái yfir um 38,5% af markaðsvirði Facebook sem er um 565 milljarðar dollara.

Í bréfi til viðskiptavina segir Nicolas Cote-Colisson, yfirmaður greiningardeildar HSBC að þrátt fyrir að það hafi tekið tíma fyrir stjórnvöld og eftirlitsstofnanir að koma fram með hugmyndir sína þá megi það vera ljóst að þessir aðilar séu tilbúnir með áætlanir um skýr inngrip. Þá segir einnig að vaxtarhraði Facebook sé farinn að koma niður á fyrirtækinu og sé orðinn áhættuþáttur sem slíkur þar sem enn frekari vöxtur auki líkurnar á frekari athugunum og inngriðum stjórnvalda og eftirlitsstofnanna.

Facebook hefur á síðustu misserum verið undir smásjá stjórnvalda og eftirlitsstofanna bæði í Bandaríkjunum og um heim allan. Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna og Evrópusambandið hafa bæði hafi rannsókn á starfsháttum Facebook bæði hvað varðar samkeppni eða vegna hinnar væntu rafmyntar Libra.

Þrátt fyrir aukinnar áhættu vegna íþyngjandi reglugerða hafa hlutabréf Facebook hækkað um yfir 50% það sem af er þessu ári. Þá er verðmat HSBC töluvert undir meðaltali greiningaraðila á Wall Street sem er um 238 dollarar á hlut. Að mati HSBC er hins vegar bara tímaspursmál hvenær hlutabréfaverðinu verði ógnað af alvöru af persónuverndarmálum, reglugerðum og samkeppnismálum.