Þegar íslenska ríkið keypti tæplega 50% hlut í Landsvirkjun af Reykjavíkurborg (45%) og Akureyrarbæ (5%) 2. nóvember 2006 var miðað við það að innra virði (price to book) fyrirtækisins væri einn, eða sem nemur eiginfé þess. Kaupverð ríkisins var 30,25 milljarðar króna. Greitt var með 3,4 milljörðum króna við gildistöku samingsins og síðan með skuldabréfi til 28 ára þar sem greiðslur renna til lífeyrissjóða starfsmanna sveitarfélaganna tveggja.

Mikið vatn runnið til sjávar

Á þessum tæplega fjórum árum hefur mikið vatn runnið til sjávar, þar á meðal í gegnum virkjanir Landsvirkjunar. Munar þar miklu um að Kárahnjúkavirkjun, langsamlega stærsta einstaka virkjunareign Landsvirkjunar, er byrjuð skapa verðmæti fyrir fyrirtækið með framleiðslu á raforku fyrir álver Alcoa á Reyðarfirði. Augljóslega hefur það áhrif á það að virði Landsvirkjunar er meira en það var er ríkið keypti helmingshlutinn til sín. Að lágmarki er Landsvirkjun nú hundruð milljarða virði.

Miðað við sama margfaldara innra virðis og var notaður árið 2006 er verðmæti Landsvirkjunar nú 192 milljarðar króna eða sem nemur eigin fé þess. Sé hins vegar annar margfaldari notaður, sem verður að teljast eðlilegt í ljósi þess að rekstur félagsins er hagkvæmari, þá er Landsvirkjun mun meira virði. Miðað við margfaldarann 1,5 er virði Landsvirkjunar 288 milljarðar króna og sé margfaldarinn tveir notaður er virðið 384 milljarðar króna.

Erfitt að verðmeta

Virðisútreikningar eru oft á tíðum umdeildir þegar kemur að orkufyrirtækjum. Einkum vegna þess að verðmeta þarf framtíðartekjur, sem þar að auki sveiflast eftir álverði í þessu tilfelli. Eins og síðustu ár á hrávörumörkuðum eru til marks um, er nær ómögulegt að segja til um hvernig hrávöruverð þróast til framtíðar litið.

Þegar ríkið auglýsti 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja gerði það sér vonir um fá um tvo til þrjá milljarða króna fyrir hlutinn. Reyndin varð síðan sú að Geysir Green Energy, þar sem FL Group og Glitnir voru helstu bakhjarlar, áttu hæsta boð upp á 7,4 milljarða króna. Sá verðmiði var miðaður við innra virði upp á 3,4, og bar nokkurn keim af því að mesta eignabóla sem myndast hefur í vestrænu ríki, sem hraðasta útþensla fjármálakerfis lands í sögunni kynti undir, stóð þarna sem hæst.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.